„Ég hjálpa fyrirtækjum að greina hnökra í ferlum, skapa skýrleika og bæta flæði“.
Með heildrænni nálgun tengi ég saman fólk, ferla og tækni – fyrir mælanlegan árangur.“
Erna María Jensdóttir
Ég starfa sem ráðgjafi í ferlaumbótum og vinnumenningu með sérstaka áherslu á að sjá það sem oft fer fram hjá þeim sem starfa of nærri daglegu verkefnunum.
Glöggt er gestsaugað – og með heildrænni nálgun hjálpa ég fyrirtækjum að greina smáatriðin sem hafa stór áhrif: hnökra í flæði, ósýnileg samskiptamynstur, óljósar ábyrgðarlínur og tregðu í ferlum sem oft safnast saman og tefja bæði fólk og niðurstöður.
Nálgun mín byggir á því að skilja fólk, samvinnu og vinnuferla og tengja þá innsýn við hagnýta greiningu og umbótavinnu. Þar nýtist mér bakgrunnur minn í mannfræði, sem gefur mér djúpan skilning á hegðun, menningu og óformlegum þáttum vinnustaða – þáttum sem gæðaskjöl og ferlalýsingar ná sjaldan að fanga.
Samhliða mannlegri innsýn styðst ég við greiningarlíkön, kortlagningu og nútíma umbótatól sem gera breytingar sýnilegar, framkvæmdanlegar og mælanlegar.
Ég er með MS gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands, með áherslu á þjónustustjórnun, nýsköpun og stefnumótun. Í meistaraverkefninu mínu vann ég að þjónustuvegferð og ferlagreiningu hjá Samkaupum, þar sem ég skoðaði flæði í innkaupum, rekstri og upplýsingamiðlun. Ég hef einnig unnið að greiningu og þróun mælaborða fyrir NTÍ, sem studdu við markvissari ákvarðanatöku og skilvirkari þjónustu.
Þessi samsetning – mannfræði, viðskiptafræði og fjölbreytt reynsla úr þjónustu, rekstri, ferlum og fræðslu – hefur mótað sterka heildræna vinnuaðferð. Hún gerir mér kleift að sjá bæði stóru myndina og smáatriðin sem skipta máli, og að finna lausnir sem virka í raun, ekki bara á blaði.
Markmið mitt er að hjálpa fyrirtækjum að sjá skýrara, styðja fólk í gegnum breytingar og byggja vinnuumhverfi þar sem flæði, árangur og ánægja fara saman.
Starfsreynsla og verkefni
Starfsreynsla mín spannar yfir fjölbreytt verkefni þar sem ég hef unnið að kortlagningu, greiningu og hagræðingu verkferla, auk þess að styðja fyrirtæki í innleiðingu breytinga, upplýsingamiðlun, fræðslu og þróun innviða. Undanfarin ár hef ég starfað sem sjálfstætt starfandi verktaki og tekið þátt í margvíslegum umbótaverkefnum hjá stórum og smærri fyrirtækjum.
Ég hef m.a. unnið með Innheimtustofnun sveitarfélaga, Náttúruhamfaratryggingum Íslands, Samkaupum og Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum við greiningar, kortlagningar, stöðumat og verkefnastjórnun. Verkefnin hafa oft snúið að því að sjá heildarmyndina í daglegu starfi – tengslin milli fólks, kerfa og vinnumenningar – og styðja fyrirtæki við að nýta þau gögn og ferla sem þegar eru til staðar á markvissari hátt.
Í gegnum þessi verkefni hef ég einnig sinnt kennslu og fræðslu, meðal annars hjá MSS og Samkaup, þar sem ég hef kennt og leitt námskeið tengd ferlum, verkfærum, upplýsingaflæði og bættri samvinnu. Sú reynsla hefur dýpkað skilning minn á því hvernig best er að miðla breytingum, virkja fólk og byggja upp þekkingu innan fyrirtækja.
Áður starfaði ég í áratug í stjórnunarhlutverki í þjónustu og velferðarkerfi, þar sem ég bar ábyrgð á fjölbreyttum rekstri, mannahaldi, stefnumótun og innleiðingu breyttra vinnubragða. Sú reynsla hefur mótað djúpan skilning á mannlegum þáttum vinnunnar, ásamt því að styrkja hæfni mína í samskiptum, skipulagi og lausnamiðaðri nálgun.
Þessi blanda af ráðgjafarreynslu, rekstrarþekkingu, fræðslu og mannlegri innsýn er grunnurinn að heildrænu vinnuaðferðum mínum í dag – að hjálpa fyrirtækjum að skapa skýrara flæði, betri upplifun og árangursríkari vinnu.
Umsagnir samstarfsaðila
„Það er alltaf gaman að sjá fólk vaxa og þá sérstaklega þegar það er í samstarfi við okkur Heiður Björk Friðbjörnsdóttir í gegnum vegferðina okkar hjá Samkaupum! Erna María Jensdóttir byrjaði hjá okkur í starfsþjálfun í gegnum Háskóla Íslands, sem þróaðist yfir í að hún gerði lokaverkefnið sitt í mastersnáminu sínu um þjónustuvegferð okkar og stefnumótun ásamt því að hún kom inn sem giggari fyrir okkur til að ná heildrænni nálgun á þjónustu út fyrir verslanir og hefur tekið ýmis verkefni síðan! Erna býr yfir yfirgripsmikilli þekkingu og er einstaklega góð í að kortleggja, ná yfirsýn og töfra svo fram lausnir sem henta fyrirtækinu. Áfram Erna! Gangi þer vel í næstu giggum 👏“
Gunnur Gunnarsdóttir framkvæmdastjóri verslunar- og mannauðssviðs Samkaupa hf.
„Ég hef átt í mjög góðu samstarfi við Ernu Maríu. Hún er faglegur kennari sem vinnur lausnamiðað og með frábæru skipulagi. Erna María er dugleg að tileinka sér nýjungar, áreiðanleg og sjálfstæð í vinnubrögðum. Hún fylgir verkefnum sínum vel eftir, sýnir frumkvæði og leitar alltaf bestu lausnanna.“
Nanna Bára Maríasdóttir
Verkefnastjóri hjá Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum